Hagnýtar upplýsingar

Opnun skólans á morgnana

Anddyri skólans opnar kl. 7:45. Hafragrautur er í boði fyrir nemendur frá kl. 8:10. Kennsla hefst stundvíslega kl. 8:30. 

Skrifstofa

Skrifstofa Álftamýrarskóla er opin frá kl. 8:00-15:00 alla virka daga nema föstudaga, en þá lokar kl. 14:15. Símanúmer skólans er 411-7340 og netfangið alftamyrarskoli@rvkskolar.is

Yfir sumartímann er skrifstofan lokuð frá 17. júní til og með frídags verslunarmanna. 

Forföll nemenda

Tilkynna þarf veikindi og skammtímaleyfi í gegnum Námfús (www.namfus.is), strax að morgni. Þegar nemendur koma í skólann að nýju eftir veikindi þurfa þeir að hafa heilsu til að taka þátt í skólastarfinu samkvæmt stundaskrá og til að vera úti í frímínútum. 

Ef leyfi er lengra en 2 dagar þarf að sækja um það með því að senda póst á alftamyrarskoli@rvkskolar.is og tilgreina fullt nafn nemanda, tímabil leyfis og ástæðu. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki. Öll röskun á námi nemenda, sem hlýst af leyfi eða undanþágu frá skólasókn, er á ábyrgð foreldra eða forsjáraðila.

Nesti

Nemendur á yngsta- og miðstigi borða nesti um kl. 10 í kennslustofum. Þeir eiga að taka með sér hollt og gott nesti að heiman og vatnsbrúsa. Nemendur 8.-10. bekkjar borða í matsal og fá hafragraut í boði skólans.

Mötuneyti

Við Álftamýrarskóla er rekið mötuneyti fyrir nemendur og starfsfólk. Foreldrar skrá börn sín í mat í gegnum Völu eða skrifstofustjóra. Stefna skólans er að bjóða upp á fjölbreytta og holla fæðu í mötuneytinu.  Ef nemendur eru með ofnæmi eða óþol þarf að skila inn læknisvottorði á skrifstofu. 

Frímínútur

Nemendur í 1.-7. bekk fara daglega út í frímínútur tvisvar á skóladeginum. Skólaliðar, stuðningsfulltrúar og kennarar annast gæslu nemenda á göngum og skólalóð. Til þess að nemendur geti notið útivistar þurfa þeir að vera klæddir eftir veðri og hafa með sér auka föt þegar ástæða er til. Hjá okkur er allra veðra von en reynt er að fara alltaf út með nemendum á hverjum degi. Nemendur í 8.-10. bekk hafa val um útiveru.

Námfús

Námfús heldur utan um stundatöflur, ástundun, heimavinnu, bókun í foreldraviðtöl og námsmat. Foreldrar/forsjáraðilar tilkynna veikindi og skammtímaleyfi barns þar inni. Hægt er að leita til skrifstofustjóra fyrir nánari upplýsingar. 

Íþróttir og sund

Sundkennsla fer fram í Laugardalslaug. Rúta ekur nemendum og er fylgdarmanneskja með öllum  árgöngum.  Nemendur í 1. og 2. bekk fá aðstoð frá starfsfólki skólans í búningsklefum. 

Í íþróttatímum klæðast nemendur þægilegum fatnaði, 1.-4. bekkur er berfættur, 5.-10. bekkur í íþróttaskóm. Athugið að í september og í maí fara íþróttatímar fram utanhúss.